Saturday, September 23, 2006
Orkering
Orkering, orkis, tatting, frywolitka, frivolite, schiffchenspize og occhi er orðin sem ég hef rekist á á internetinu yfir þetta handverk sem talið er að eigi uppruna sinn í ítölskum nunnuklaustrum fyrir um það bil fimmhundruð árum síðan. Orkeraðar blúndur fóru að sjást á málverkum á sautjándu og átjándu öld en þetta handbragð lagðist af um langa hrið eða þar til myndir og munstur fóru að stinga upp kollinum aftur í lok 19. aldar og upphafi þeirrar 20. Þetta hefur þó aldrei verið útbreidd handavinna og þegar ég rakst á uppskrift að orkeruðum dúk í dönsku handavinnublaði fyrir áratugum síðan var mér það hulin ráðgáta hvernig og hvar hægt væri að læra þetta handbragð. Það var svo fyrir nokkrum árum að ég komst að því að móðursystir hafði lært að orkera af föðursystir sinni og hún sýndi mér hvaða efni og áhöld ég þyrfti um leið og hún kenndi mér grunnhandbragðið við verkið. Það væri synd að segja að ég hafi náð einhverjum tökum á orkeringunni í það skiptið enda tíminn stuttur en ég rakst nokkrum mánuðum siðar á bók um ,,tatting" á bókasafninu og þá var ég komin með kennsluna fyrir framan mig og gat dundað mér á mínu hraða við að átta mig á hnútunum sem mér fannst ansi ruglingslegir til að byrja með. Hnútarnir vildu alltaf koma á rangan þráð svo allt sat fast. En ég var komin á bragðið og búin að komast að því hvað orkering hét á ensku og við það opnuðust ótal dyr á netinu þar sem ég hef rekist á hvern fjársjóðin á fætur öðrum bæði af fallegurm munstrum og góðri kennslu.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment